Ferill 758. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1152  —  758. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um að afhenda íslensku þjóðinni handrit þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar úr Ríkisbókasafni Bæjaralands í München.


Flm.: Jakob Frímann Magnússon, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Tómas A. Tómasson, Stefán Vagn Stefánsson, Birgir Þórarinsson, Þórarinn Ingi Pétursson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason, Ágúst Bjarni Garðarsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Ásmundur Friðriksson.


    Alþingi ályktar að fela menningar- og viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra að fara þess á leit við stjórnvöld í Bæjaralandi að handrit þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar, sem er í eigu Ríkisbókasafns Bæjaralands í München, verði afhent íslensku þjóðinni til ævarandi varðveislu.

Greinargerð.

    Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, kom upphaflega út í tveimur bindum í Leipzig árin 1862 og 1864. Jón fór aldrei út til Þýskalands til að fylgja útgáfunni eftir en Konrad Maurer, prófessor í réttarsögu og vinur Jóns Sigurðssonar, fylgdi henni eftir ásamt Guðbrandi Vigfússyni, málfræðingi í Oxford.
    Sumarið 1858 ferðaðist Maurer vítt og breitt um Ísland og safnaði þjóðsögum og ævintýrum. Bók hans um íslenskar þjóðsögur, Isländische Volkssagen der Gegenwart, kom út árið 1860. Heildarútgáfa safns Jóns Árnasonar birtist síðan á prenti á árunum 1954–1961 í fimm bindum, auk nafnaskrár í sjötta bindi. Prentsmiðjuhandrit útgáfunnar frá 1862–1864 hvarf, en fannst fyrir tilviljun í gögnum föður Konrads Maurers í Ríkisbókasafni Bæjaralands í München ( Bayerische Staatsbibliothek).
    Svo virðist sem handritið hafi farið frá prófessor Konrad Maurer og tilheyrt röngum gögnum að prentun lokinni. Handritið tilheyrir með réttu Jóni Árnasyni, útgefanda þjóðsagnasafnsins, og ætti að vera varðveitt á Íslandi, annaðhvort í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns eða hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þar sem rannsóknum á íslenskum þjóðsagnaarfi er sinnt.
    Þjóðsögur Jóns Árnasonar eru hluti af þjóðernisvakningu nítjándu aldar þar sem íslenska þjóðin vildi sanna tilveru sína með sambærilegum þjóðlegum arfi og aðrar þjóðir í Evrópu gerðu. Hið stjórnskipulega ferli er hófst með endurreisn Alþingis árið 1845, stjórnarskrá árið 1874, heimastjórn árið 1904, fullveldi árið 1918 og lauk við lýðveldisstofnun árið 1944 er eitt merkasta tímabil Íslandssögunnar. Meðfram þessu vildu fræðimenn og skáld styðja við sjálfstæði landsins. Framlag Jóns Árnasonar var þjóðsagnasafnið sem við hann er kennt.
    Handrit þjóðsagnasafnsins er íslenskur þjóðararfur. Einn merkasti þjóðsagnafræðingur Evrópu á síðustu öld, írski fræðimaðurinn Séamus Ó Duilearga, lét þau ummæli falla að safn Jóns Árnasonar væri þjóðsagnasafn sem ætti engan sinn líka í víðri veröld. Um Jón Árnason landsbókavörð segir í Árbók Landsbókasafns Íslands 1944: „Það orkar ekki tvímælis, að hann er mestur verðleikamaður og gagnsmestur þeirra bókavarða, sem að safninu hafa komið hingað til, og myndi hans hafa notið enn betur, ef safnið hefði á fyrri árum hans haft betri fjárráð.“
    Af þessum ástæðum, sem hér hafa verið raktar, er rétt og eðlilegt að menningar- og viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra fari þess á leit við stjórnvöld í Bæjaralandi að handrit þjóðsagna Jóns Árnasonar, sem er í eigu Ríkisbókasafns Bæjaralands í München, verði afhent íslensku þjóðinni. Vert er að minnast vináttu Sambandslýðveldisins Þýskalands og lýðveldisins Íslands frá því að stjórnmálasamband ríkjanna var tekið upp árið 1952, að lokinni síðari heimsstyrjöld, sem aldrei hefur fallið skuggi á, þrátt fyrir ólíkar skoðanir við útfærslu landhelgi Íslands.